is / en / dk

Skólastefna Kennarasambands Íslands 2014-2018, samþykkt á 6. þingi KÍ 1.-4. apríl 2014.

Menntun er mannréttindi og almannahagur og ein mikilvægasta grunnstoðin í velferðarkerfinu. Með menntun öðlast einstaklingurinn gagnrýna þekkingu, færni og getu til þess að gera sér grein fyrir, kanna og leysa vandamál, jafnt í eigin umhverfi og í umheiminum. Það er réttmæt krafa að allir hafi aðgang að góðum kennurum, nútímatækjakosti og kennslugögnum ásamt námsumhverfi sem er öruggt og hvetjandi.

Kennarasamband Íslands vill skapa einhug um gæði menntunar og efla samvinnu um menntamál á Íslandi. Rík áhersla er lögð á að kennarastarfið er eitt mikilvægasta starfið í samfélaginu. Fyrir hendi þarf að vera skýr menntastefna og framtíðarsýn, bæði menntamálayfirvalda í landinu og sveitarstjórna á hverjum stað. Mikilvægt er að yfirvöld eigi náið samstarf við kennara, skólastjórnendur, náms- og starfsráðgjafa og samtök þeirra við stefnumótun og framkvæmd skólastarfs.

Gæði skólastarfs eru aldrei einsleit né einföld. Góð menntun er háð þáttum eins og kennaramenntun, félagslegum bakgrunni nemenda, starfsskilyrðum, hópastærðum og framlögum til menntamála. Einnig þeirra væntinga sem eru gerðar vegna þarfa einstaklinga, þjóðfélags, menningar, efnahags og umhverfis.

Knýjandi er að þeirri vinnu sem hófst með lagasetningu árið 2008 og nýjum aðalnámskrám 2011 ljúki og markmiðum laga verði framfylgt. Leggja þarf áherslu á skóla fyrir alla og það fjármagn sem til þarf til að allir hafi jafnan rétt til skólagöngu og menntunar sem tekur mið af þörfum einstaklingsins jafnt sem heildarinnar.

Stjórnvöldum ber að tryggja nægilegt stofn- og rekstrarfjármagn til að gera megi viðurkenndar kröfur til náms, kennslu og rannsókna í skólastarfi. KÍ leggur áherslu á fullt jafnrétti til náms óháð efnahag. Á Íslandi þarf enn að greiða umtalsverðar fjárhæðir fyrir skóladvöl barna og unglinga. KÍ leggur áherslu á að gjaldtaka í skólastarfi verði lágmörkuð.

Félagsmenn KÍ og samtök þeirra hafa ríkar skyldur til að fjalla um þróun náms og kennslu, ráðgjöf og skólastjórnun á hverjum tíma. Hagur skóla og skólastarfs og aðstæður til að rækja lögboðið starf sem samrýmist markmiðum um aðlaðandi og framsækið náms- og starfsumhverfi er mikilvægasta viðfangsefni skólasamfélagsins.

Siðareglur auka gildi kennarastarfsins og hjálpa kennurum til að taka faglegar ákvarðanir. Þær gera kennurum auðveldara að helga sig kennarastarfinu og vinna með nemendum, samstarfsfólki, foreldrum og skólasamfélaginu. Þær eru mikilvæg lyftistöng fyrir fagmennsku og eiga að auka starfsánægju og styrkja sjálfsmynd kennara. Félagsmenn skulu hafa siðareglur að leiðarljósi í starfi sínu.

Kennarar eru í lykilhlutverki í menntun nemenda og standa og falla gæði menntunar með þeim.

Mjög áríðandi er því að gera kennarastarfið aðlaðandi og eftirsóknarvert. Stjórnvöldum ber skylda til að sjá til þess að bæði þeim sem nú eru að störfum og verðandi kennurum finnist kennarastarfið og starfskjör þess eftirsóknarverð og standist samanburð við kjör sambærilegra starfsstétta.
 

Kennaranám til meistaraprófs þarf að vera skipulagt þannig að gott jafnvægi sé milli menntunar í kennslugreinum/á fagsviðum og kennarafræða. Starfandi kennurum verður að vera gert kleift að afla sér frekari menntunar á launum samhliða kennslu til þess að geta lokið meistaraprófi.

Leggja skal áherslu á lifandi umræðu um málefni kennaramenntunar meðal félagsmanna og við háskóla. Jafnframt er mikilvægt að sjónarmiðum um þróun hennar sé komið á framfæri sem víðast og kennaramenntun sé í stöðugri endurskoðun í samráði við aðila sem málið varðar. Koma þarf á viðurkenndu gæðakerfi til að meta kennaranám, þar með talið vettvangsnám og leiðsögn til nýliða í starfi.

Starfsþjálfun kennaranema og náms- og starfsráðgjafanema á vettvangi á að vera veigamikill og lögbundinn hluti menntunar þeirra. Skipulögð leiðsögn nýrra kennara í starfi verði formlegur hluti af heildarskipulagi kennaramenntunar. Tryggja þarf að leiðsagnarkennarar fái viðeigandi þjálfun og handleiðslu.

 

Menntun er æviverk og því mikilvægt að framboð á símenntun við hæfi félagsmanna KÍ sé nægilegt og í sífelldri þróun. Störf við nýbreytni- og þróunarstarf í skólum og í eigin faggreinum ætti að vera metin til jafns við hefðbundna símenntun. Aðstaða til að stunda símenntun bæði á starfstíma skóla og utan hans þarf að vera góð og með hvatningu frá starfsumhverfinu.

Tryggja þarf betur og auka fjárveitingar til símenntunar félagsmanna á öllum skólastigum sem og sérstakt fjármagn til skóla til þess að kosta símenntun félagsmanna vegna sérhæfðra kennsluhátta og aðferða.

Félagsmenn og samtök þeirra þurfa að hafa tækifæri til þess að taka þátt í stefnumótun um símenntun bæði heildstætt og á eigin starfsvettvangi. Mikilvægt er að fagráð um símenntun/ starfsþróun verði frjór vettvangur til að skapa umræðu, greina þarfir, miðla upplýsingum og setja fram hugmyndir um stefnu.

Félagsmönnum ber að miða eigin símenntun við faglega þróun, nýjungar, þarfir starfs síns og starfsemi skóla. Tryggja þarf að viðhald menntunar og þekkingar félagsmanna sé í samræmi við hugmyndir um fagmennsku og svari bæði þörfum einstaklingsins og skólastarfsins í heild.

Félagsmenn ættu að eiga rétt á reglulegum starfsþróunarsamtölum á vinnustöðum sínum.

 

Kennurum, náms- og starfsráðgjöfum og skólastjórnendum sé gert kleift að stunda framhaldsnám á launum samhliða starfi og aðgangur að slíku námi á háskólastigi verði tryggður.
Félagsmenn skulu eiga kost á að stunda rannsóknir á skólastarfi og aðstæður til þess skapaðar . Þeir skulu sýna frumkvæði og nýta tækifæri til rannsókna á eigin starfsvettvangi í samvinnu við samstarfsfólk og aðra fagaðila.

Upplýsingum um rannsóknir á skólastarfi á Íslandi verði safnað saman af háskólunum þannig að þær nýtist betur til að efla og bæta skólastarf. Átak verði gert til þess að kynna og hafa aðgengilegan afrakstur þróunar-og nýbreytnistarfs í skólum á öllum skólastigum.

Réttur til reglubundinna náms- og rannsóknarleyfa verði skýlaus og fjármunir stórauknir til þeirra.

 

Kennarar eru faglegir forystumenn í sínu starfi. Þeir eru sérfræðingar á sviði menntamála sem kenna, miðla og virkja nemendur í þekkingarleit. Leggja skal áherslu á að laða hina hæfustu í kennarastörf hverju sinni og að bæta starfsaðstæður í skólum þannig að kennarastarfinu sé skapaður sá sess sem því ber.

Kennarar mennta nemendur, stuðla að alhliða þroska þeirra og laða fram það besta hjá hverjum og einum og hópnum í heild. Kennarar skulu sýna nemendum virðingu og umhyggju og vera þeim góð fyrirmynd. Gagnkvæm virðing kennara og nemenda skapar jákvæðan skólabrag þannig að gleði og áhugi ríki í skólastarfinu.

Kennarar skipuleggja og leiða starfið í skólanum og miðla öðrum af sérfræðiþekkingu sinni bæði innan skólans og til samfélagsins. Kennarar sýna fagmennsku í hvívetna og taki ávallt virkan þátt í skólasamfélaginu. Samstarf og teymisvinna er hluti af kennarastarfinu og nauðsynleg fyrir þróun skólastarfsins.

Kennarar skulu leggja áherslu á að lýðræði sé haft að leiðarljósi í skólastarfi. Að sama skapi skal samráð haft við kennara um mikilvægar ákvarðanir skólastjórnenda og yfirvalda. Standa þarf vörð um sjálfræði kennara til að taka ákvarðanir er varða eigin kennslu, mat og kennsluaðferðir.

Kennarar leggi áherslu á að efla sjálfstæði nemenda og að virkja þá í námi. Kennarar beita fjölbreyttum og skapandi kennslu- og matsaðferðum. Þeir hafi aðgang að fjölbreyttu námsefni fyrir nemendur í samræmi við áherslur laga um nám við hæfi hvers og eins.

Til að efla og þróa skólastarf er mikilvægt að kennarar stundi þróunar- og nýbreytnistörf og fylgist með og kynni sér rannsóknir og nýjungar í faginu. Upplýsingatækni skapar möguleika til að efla og auka fjölbreytni menntunar og þurfa kennarar að hafa vald á mismunandi leiðum til samskipta og í kennslu.

Kennarar starfi saman þvert á skólastig, miðla upplýsingum um námsefni og kennsluhætti til að tryggja sem best samfellu í námi.

Nýir kennarar og kennaranemar skulu fá markvissa fræðslu um réttindi og skyldur í starfi og allir kennarar skulu eiga kost á ráðgjöf og handleiðslu í starfi.

 

Skólastjórnendur hafa faglega forystu um mótun og uppbyggingu skólastarfsins. Þeir stuðla að jákvæðum samskiptum og trausti í starfsmannahópnum, virkja mannauðinn og tryggja starfsþróun hans.

Hlutverk skólastjórnenda er að samhæfa störf kennara og annarra starfsmanna og vinna með þeim að því að byggja upp skólabrag þar sem velferð og vellíðan allra í skólanum er í fyrirrúmi.

Stjórnendur tryggja að boðleiðir séu skýrar, upplýsingar um starfsemi skólans og fjárhagsstöðu séu aðgengilegar og lýðræðisleg vinnubrögð höfð að leiðarljósi.

Mikilvægt er að skólastofnanir og skólastjórnendur hafi rekstrarlegt sjálfstæði og skýra ábyrgð.

Tryggja þarf stjórnendum góðar starfsaðstæður til að sinna stjórnun og skipulagi skólastarfs. Nýliðar við stjórnun skulu eiga rétt á ráðgjöf og leiðsögn.

Stjórnun skóla skal vera í höndum skólastjórnenda með kennsluréttindi auk framhaldsmenntunar á sviði stjórnunar.

Skólastjórnendum skulu tryggðir möguleikar á fjölbreyttum leiðum til starfsþróunar, m.a. í framhaldsnámi innan háskólanna og annarrar símenntunar.

 

Tryggt skal að hver skóli hafi aðgang að náms- og starfsráðgjafa með tilskilda menntun. Koma þarf á heildstæðri náms- og starfsráðgjafaáætlun fyrir skóla þar sem ekki fleiri en 300 nemendur eru að baki hverju stöðugildi.

Í skólanámsskrá eiga að koma fram markmið og stefna skóla varðandi náms- og starfsráðgjöf og náms- og starfsfræðslu auk þess sem þess er getið hvernig skóli rækir skyldur sínar og hlutverk á þessu sviði.

Náms- og starfsráðgjafar standa vörð um velferð allra nemenda og sinna þörfum þeirra með ráðgjöf hvað varðar nám, persónuleg málefni og náms- og starfsval. Starf þeirra er fyrirbyggjandi, fræðandi og þroskandi. Þeir eiga að sýna nemendum virðingu, umhyggju og efli sjálfstæði þeirra.

Náms- og starfsráðgjöfum eiga að vera tryggðar góðar starfsaðstæður í skólum til að veita nemendum leiðsögn í málum sem snerta námið og skólann.

Náms- og starfsráðgjafar skulu eiga kost á ráðgjöf og handleiðslu í starfi og möguleikum á fjölbreyttum leiðum til starfsþróunar. Nýliðum skal tryggð ráðgjöf og leiðsögn.

 

Meginmarkmið skólastarfs er að stuðla að menntun og alhliða þroska nemenda, efla sjálfstraust þeirra, jákvæða sjálfsmynd og lífsleikni. Efla skal færni og löngun nemenda til að læra, viðhalda þekkingu og leikni þannig að þeir séu virkir þátttakendur í samfélaginu.

Öllum nemendum skal tryggður sambærilegur aðgangur að námi í grennd við heimili sitt, aðstöðu og tengdri þjónustu þannig að komið sé í veg fyrir mismunun. Nemendum bjóðist mismunandi skólar, námsumhverfi og fjölbreyttar kennsluaðferðir sem henti ólíkum viðfangsefnum og nemendahópum.

Nemendur skulu eiga kost á sveigjanlegu og skapandi skólastarfi þar sem lögð er áhersla á nám og kennslu við hæfi hvers og eins með fjölbreyttum og viðeigandi námsgögnum. Nemendur takist á við margvísleg viðfangsefni, fái tækifæri til sköpunar og þjálfist í lýðræðislegum vinnubrögðum.

Nemendur taka aukna ábyrgð á eigin námi eftir því sem líður á skólagöngu. Þeir fái aukinn tillögu- og umsagnarrétt um námsskipulag, námsefni og kennslutilhögun sem og um önnur mál sem varða hagsmuni þeirra.

Ávallt skal tryggja að stærð nemendahópa miðist við að hver einstaklingur fái notið sín.

Við mat á færni og framförum nemenda skal taka mið af alhliða þroska þeirra og stefna að lýðræðislegri þátttöku nemenda í matinu í samræmi við aldur og þroska.

Námsferðir og námsgögn verði nemendum á öllum skólastigum að kostnaðarlausu og stjórnvöld beri kostnað af list- og verknámi á grunn- og framhaldsskólastigi. Stefna skal að gjaldfrjálsum leikskóla í allt að sex stundir daglega.

Milli skólastiga þarf að vera góð samfella í námi. Námsframvinda þarf að taka mið af þörfum hvers og eins. Til þess þarf nemendum að standa til boða heildstæð náms- og starfsfræðsla.

Nemendur á öllum skólastigum eiga að hafa umsjónarkennara/deildarstjóra í leikskóla sem séu vakandi yfir þroska þeirra og fylgjast með námi þeirra. Skólar skipuleggja samstarf við foreldra og forráðamenn ólögráða nemenda vegna náms þeirra.

Nemendum skal standa til boða niðurgreitt hollt fæði í skólanum í samræmi við manneldismarkmið Lýðheilsustöðvar.

Viðeigandi stoðþjónusta sem miðast við þarfir einstakra nemenda sé í boði innan skólanna eftir því sem við á. Nemendur hafa aðgang að fjölbreyttri félags- og heilbrigðisþjónustu, svo sem hjúkrunarfræðingi og læknisþjónustu, sálfræðiaðstoð, talþjálfun, þjónustu túlka, náms- og starfsráðgjöf, sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun.

Þjónusta við nemendur með annað móðurmál en íslensku verði stórbætt á öllum skólastigum og séð til þess að þeir nemendur fái kennslu í sínu móðurmáli, stuðning í íslensku og aðra sértæka aðstoð sem þörf er á að mati kennara og annarra fagaðila í skólum.

 

Allt nám einkennist af jafnrétti og lýðræði og skal stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun nemenda í sem fyllstu samræmi við stöðu, þarfir og getu hvers og eins. Námið fer fram á formlegan og óformlegan hátt og er skipulagt með hagsmuni nemenda og menntunar þeirra í huga.

Fjölbreytni þarf að ríkja í skólagerðum og stefnu skóla, námsleiðum, kennsluaðferðum, námsaðferðum og námsgögnum. Í leikskóla er leikurinn t.d. meginnámsleið sem ber að standa vörð um.

Hver skóli mótar sína skólanámskrá samkvæmt stefnu skólans og áherslum sem settar eru fram í aðalnámskrá. Í skólanámskrá eru skilgreind markmið og innihald skólastarfsins.

Í námi nemenda skiptist á skylduviðfangsefni og viðfangsefni að vali þeirra sjálfra. Nemendur eigi bæði val um mismunandi aðferðir og nálgun innan viðfangsefna/námsgreina/námsáfanga og á milli námsgreina og/eða sviða.

Nemendum skal standa fjölbreytt nám til boða og áhersla lögð á að bók-, list- og starfsnám verði metið að jöfnu. Tengsl atvinnulífs og skóla verður að styrkja og auka. Framboð á fjölbreyttum og vönduðum námsgögnum verði aukið og í samræmi við þarfir nemenda, skóla og kennslugreina.

Vettvangsferðir og önnur vettvangstenging náms eru mikilvægur þáttur í skólastarfi og nýta ber náttúru og grenndarsamfélag markvisst.

Námsmat þarf að vera leiðbeinandi, markvisst, fjölbreytt og mæli alhliða þroska, framfarir og getu nemenda. Námsmat skal taka til allra færni- og hæfniþátta. Það veiti nemendum upplýsingar um stöðu þeirra og sé í tengslum við markmið námskrár.

Starf menntaðra sérkennara, náms- og starfsráðgjafa er sjálfsagður og eðlilegur þáttur í skólastarfinu. Nemendur sem þess þurfa eigi rétt á aðgangi að slíkum sérfræðingum og leitast sé við að fella slíkt starf með eðlilegum hætti inn í nám og kennslu.

Fagfélög gegna mikilvægu hlutverki í mótun náms. Þau ber að hafa með í ráðum við allar breytingar sem varða einstakar námsgreinar/námssvið. Mikilvægt er að efla starfsemi fagfélaga og nauðsynlegt að mennta- og menningarmálaráðuneytið tryggi þeim fjármagn til starfsemi sinnar.

 

Skólinn er mennta- og uppeldisstofnun ásamt því að vera vinnustaður nemenda, kennara, náms- og starfsráðgjafa, skólastjórnenda og annars starfsfólks. Skólinn skal rækta íslenskan menningararf ásamt því að bera virðingu fyrir mismunandi menningarhópum.

Lög og reglugerðir um skólastarf þarf að innihalda skýr viðmið um skyldur stjórnvalda, réttindi og skyldur nemenda og starfsfólks skóla og starfsaðstæður í skólum.

Skólar hafi faglegt sjálfstæði og nægar fjárveitingar til að móta eigin námskrár og áherslur í innra starfi. Samningar og samskipti milli skóla og stjórnvalda einkennist af virðingu og jafnræði, treysti faglegt samstarf þeirra og sjálfstæði skóla.

Skólar skulu birta skýra stefnu um markmið sín og framkvæmd skólastarfs í hverjum skóla. Þeir marki sér stefnu um velferð nemenda og forvarnir.

Félagsmenn og samtök þeirra taki virkan þátt í að meta þróun laga og námskráa og verði þannig virkir og gagnrýnir þátttakendur í mótun þeirrar menntastefnu sem menntalög á hverjum tíma byggja á.

Skólastjórnendur, kennarar og náms- og starfsráðgjafar skipuleggi skólastarfið í góðu samráði við nemendur, foreldra og aðra starfsmenn. Kennarafundir og/eða starfsmannafundir taki fullan þátt í ákvörðunum skóla um nám, námsskipulag og stefnumótun um innra starf.

Skólar leitist við að ráða til sín vel menntaða og hæfa kennara og aðra fagmenn. Unnið skal eftir þeirri meginreglu að fela kennslu ávallt þeim sem besta menntun, hæfni og reynslu hafa til þess að gegna henni.

Ytra mat á skólastarfi er nauðsynlegur þáttur í starfsemi skóla, sem yfirvöldum ber að sinna markvisst og af sanngirni. Mat þarf að skapa tækifæri til þess að greina það sem vel gengur og festa það í sessi en breyta og lagfæra það sem ábótavant er.

Innra mat/sjálfsmat fjallar um námið og tilhögun þess, námsframboð, náms- og kennsluaðferðir, námsmat, námsgengi og líðan nemenda. Niðurstöður eru nýttar til að halda á lofti og styrkja það sem vel gengur og bæta það sem áfatt er talið.

Hver skóli mótar sínar sjálfsmatsaðferðir í samræmi við lög. Tryggja verður að skólar hafi nægar fjárveitingar til að vinna að umbótum á grundvelli niðurstaðna úr sjálfsmati og ytra mati.

Tryggja þarf tíma og fjármagn til að sinna samstarfi innan skólans, milli skóla, við nærliggjandi skólastig sem og við stoðþjónustu og sérfræðinga utan skólans til að stuðla að velferð nemenda og fjölskyldna þeirra.

Öflugt starf á sviði vinnuumhverfismála í skólum, aðgerðir gegn einelti og öðru ofbeldi, forvarnarstarf og allt sem snýr að því að búa nemendum og starfsmönnum vinsamlegt og þroskandi umhverfi er mikilvægur þáttur í starfsemi skóla jafnt sem kennarasamtakanna sem heildar.

Vinnuaðstaða og aðbúnaður skal vera fullnægjandi miðað við þarfir allra sem í skólanum starfa. Tryggja þarf nægilegt fjármagn til kaupa á kennslu- og námsgögnum og viðeigandi tækjabúnaði. Efla þarf tækjakost í upplýsingatækni í öllum skólum þannig að unnt sé að auka fjölbreytileika í námi og koma til móts við nútíma kröfur.

Skólahúsnæði skal hannað með fjölbreyttar þarfir, náms- og kennsluhætti í huga. Starfsfólk skóla skal koma að hönnun húsnæðis og útisvæða.

 

Skóli og heimili hafi virk tengsl og beri sameiginlega ábyrgð á námi og velferð nemenda. Milli aðila ríki gagnkvæm virðing, traust, jafnræði og trúnaður.

Við upphaf skólagöngu á hverju skólastigi skal lagður grunnur að samstarfi við foreldra/forráðamenn. Gagnkvæm upplýsingamiðlun á að eiga sér stað milli skóla og heimila og verkaskipting milli þessara aðila sé skýr.

Foreldrar/forráðamenn skulu styðja við skólastarfið á öllum skólastigum og veita mikilvægar upplýsingar sem leggja grunn að námi nemenda.

Skóli styður og hvetur foreldra/forráðamenn til þátttöku í skólastarfi. Þátttaka foreldra/forráðamanna styður bæði við nám og skólagöngu barna þeirra og við skólastarfið í heild sinni.