is / en / dk

11. Febrúar 2016

Samninganefndir og stjórnir Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands lýsa þungum áhyggjum af fjárhagsstöðu grunnskóla víða um land. Félögin hafa sent frá sér sameiginlega ályktun þar sem segir að óbreytt staða muni leiða til verulega skertrar þjónustu við nemendur skólanna. Skorað er á borgarstjórn og önnur sveitarfélög að endurskoða ákvarðanir og úthluta skólum nægu fjármagni til að þeir geti uppfyllt skyldur sínar við nemendur.

Ályktunin í heild hljóðar svo:  

„Sameiginlegur fundur stjórna / samninganefnda Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands, haldinn í Reykjavík 4. febrúar 2016, lýsir yfir þungum áhyggjum vegna fjárhagsstöðu grunnskóla víða um land. Óbreytt staða mun leiða til verulega skertrar þjónustu við nemendur skólanna.

Til dæmis búa grunnskólar Reykjavíkurborgar enn við skertar rekstrarforsendur frá hruni til viðbótar við óvænta hagræðingarkröfu undir lok síðasta árs. Reglur um úthlutun taka engan veginn mið af nýjum grunnskólalögum og reglugerðum. Leiðrétting vegna nýrra kjarasamninga var ófullnægjandi og þá hefur framlag til stoðþjónustu og sérkennslu ekki fylgt hækkun kostnaðar og launa hjá Reykjavíkurborg.

Því er ljóst að stjórnendur skóla þurfa víða að grípa til niðurskurðar í rekstri þeirra. Það mun leiða til frekari skerðingar á þjónustu. Að auki hafa margir skólar ekki fengið úthlutað fjármagni til endurnýjunar búnaðar annars en tölva frá hruni.

Við þessar rekstraraðstæður mun sú ákvörðun borgaryfirvalda að skólar flytji með sér halla á rekstri ársins 2015 yfir á árið 2016 eingöngu leiða til skertrar þjónustu við nemendur í grunnskólum borgarinnar á komandi misserum.

Félögin óttast að verði ekki horfið frá þessari stefnu valdi það varanlegum skaða á skólastarfi. Því er skorað á borgarstjórn Reykjavíkur og önnur sveitarfélög að endurskoða fyrri ákvarðanir og úthluta skólum nægu fjármagni til að þeir geti uppfyllt skyldur sínar við nemendur.

Nægur niðurskurður er nú þegar í skólum landsins.“