is / en / dk

05. Febrúar 2016

Ásmundur K. Örnólfsson, aðstoðarleikskólastjóri í leikskólanum Ægisborg, hlaut Orðsporið 2016 fyrr í dag. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti Ásmundi Orðsporið við hátíðlega athöfn í Bíó Paradís fyrr í dag. 

Orðsporið eru hvatningarverðlaun sem eru veitt á Degi leikskólans sem í dag er fagnað í níunda sinn. Ákveðið var að Orðsporið 2016 yrði veitt þeim sem þætti hafa skarað fram úr við að fjölga körlum í stétt leikskólakennara.

Ásmundur á að baki langan og farsælan feril sem leikskólakennari og aðstoðarleikskólastjóri. Í umsögn valnefndar um Orðsporið segir að Ásmundur hafi alla tíð verið sterk fyrirmynd fyrir karla sem starfa í leikskólum og ekki síst leikskólabarna. Ásmundur hefur unnið ötullega að málefnum leikskólans og lagt sitt af mörkum til að efla orðspor leikskólakennarastarfsins. Með framgöngu sinni hefur Ásmundur sýnt og sannað að karlar eiga jafnmikið erindi í starf leikskólakennara og konur. Þá er það ánægjuleg staðreynd að nokkrir piltar sem í æsku voru nemendur hjá Ásmundi eru nú komnir til starfa í leikskólum.

Haraldur Freyr Gíslason, formaður FL, Klara E. Finnbogadóttir, sérfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, Fjóla Þorvaldsdóttir, varaformaður FL, Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður FSL, Sigurður Sigurjónsson, varaformaður FSL, Björk Óttarsdóttir, sérfræðingur menntamálaráðuneytis, Guðrún Sólveig, leikskólastjóri á Rauðhóli, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Ásmundur K. Örnólfsson Orðsporshafi og Gerður Sif Hauksdóttir, leikskólastjóri á Grænuborg. 

Auk Ásmundar voru leikskólarnir Grænaborg og Rauðhóll tilnefnd. Í báðum leikskólum hefur verið markvisst unnið að því að menning skólans geri vinnustaðinn eftirsóknarverðan óháð kyni og er eftirtektarverkt hve margir karlmenn hafa starfað í báðum skólum. Leikskólastjórnendur Grænuborgar og Rauðhóls eru kunnir af því að hvetja sitt fólk til að mennta sig til réttinda í leikskólakennslu.

Samstarfshóp um Dag leikskólans skipa fulltrúar Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, Sambands íslenskra sveitarfélaga, mennta- og menningarmálaráðuneytis og Heimilis & skóla.

 

Myndir frá Degi leikskólans er að finna á Facebook.