is / en / dk

04. Febrúar 2016

Úrslit í samkeppni um bestu tónlistarmyndbönd tónlistarskólanna voru kynnt í dag, á Degi leikskólans. Tæp þrjátíu tónlistarmyndbönd bárust í keppnina og kom það í hlut dómnefndar, sem var skipuð Bibba í Skálmöld, Sögu Garðarsdóttur og Sölku Sól, að velja þau þrjú sem hljóta viðurkenningu. 


BESTA MYNDBANDIÐ
Leikskólinn Álfaheiði í Kópavogi fékk verðlaun fyrir besta myndbandið. Myndbandið kallast Draugar. Í umsögn dómnefndar segir að leikur barnanna hafi verið sannfærandi og ógnandi en myndbandið fjallar um furðufyrirbærið Zombie-maura. Tæknibrellur þykja mjög góðar og einn dómnefndarmanna hafði á orðið að hann hefði átt erfitt með svefn eftir að horft á myndbandið.

  • Verðlaunin eru Roylco ljósakubbur frá Krumma.is.


FRUMLEGASTA MYNDBANDIÐ
Leikskólinn Hlaðhamrar í Mosfellsbæ fékk verðlaun fyrir frumlegasta myndbandið en framlag þeirra ber titilinn Dagur í leikskólanum. Að mati dómnefndar er hugmyndin að baki myndbandinu stórgóð og sýnir vel að börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Börn og starfsmenn þykja sýna góðan leik og gleðin skín í gegn. Í myndbandinu skipta börn og starfsfólk um hlutverk og fá miklir leikhæfileikar notið sín við góðan stuðning frá tónlistinni. „Vel útfært og skemmtilegt efni,“ að mati dómnefndar.

  • Verðlaunin eru LEGO story tales kubbar – kennslugögn í DUPLO frá Krumma.is. 


SKEMMTILEGASTA MYNDBANDIÐ
Riddaralagið frá leikskólanum Krummafæti á Grenivík var valið skemmtilegasta myndbandið. Í umsögn dómnefndar segir að metnaðurinn skíni í gegn, leikmyndin sé til fyrirmyndar og búningarnir flottir. Samleikur barnanna er góður og gleðin smitar út frá sér. Að mati eins í dómnefnd ætti myndbandið að fá Edduverðlaun. „Heilt ævintýri í formi tónlistarmyndbands og frábær tónlistarflutningur,“ segir dómnefndin.

  • Verðlaunin eru Hljóðaspil – Lottó eftir Guðrúnu Sigursteinsdóttur frá Krumma.is. 

Verðlaunamyndböndin voru sýnd við hátíðlega athöfn í Bíó Paradís á Degi leikskólans og voru viðtökurnar mjög góðar.

Slóðir á myndböndin: 

Draugar – Leikskólinn Álfaheiði í Kópavogi
Dagur í leikskólanum – Leikskólinn Hlaðhamrar í Mosfellsbæ
Riddaralagið – Leikskólinn Krummafótur á Grenivík


Þá fékk myndband Heilsuleikskólans Urðarhóls sérstakt hrós dómnefndar fyrir góðan og fallegan boðskap. 

Myndir frá sýningu myndbandanna og verðlaunafhendingu.