is / en / dk

01. Febrúar 2016

Stjórnendur leikskóla í Reykjavík telja að nú sé komið inn að beini í skerðingu á fjármagni til leikskóla. Ekki sé hægt að mæta boðuðum niðurskurði nema með beinni skerðingu á þjónustu við börn og fjölskyldur og með minni gæðum í leikskólastarfinu. Þetta kemur fram í ályktun frá Reykjavíkurdeild Félags stjórnenda leikskóla. Ályktunin í heild er svohljóðandi.

Ályktun frá Reykjavíkurdeild Félags stjórnenda leikskóla

Stjórnendur í leikskólum Reykjavíkurborgar eru uggandi yfir þeirri ákvörðun Reykjavíkurborgar að skera niður fjármagn næstu tvö árin til Skóla- og frístundarsviðs. Nú þegar er boðuð hagræðingarkrafa sviðsins fyrir skólaárið 2016 um 670.000.000. Í kjölfar bankahrunsins 2008 var velt við hverjum steini í leikskólunum til að ná fram sparnaði. Það fjármagn hefur ekki nema að litlu leyti verið fært aftur til leikskólanna. Á síðastliðnu ári tóku leikskólar á sig auknar byrðar í rekstri, má þar nefna hluta af kostnaði sem fylgir sérkennslu og um leið niðurskurð á launalið. Ákvörðun borgarráðs að leikskólar taki með sér halla frá árinu 2015 yfir á árið 2016 kom stjórnendum í opna skjöldu á sama tíma og niðurskurður er boðaður. Við teljum að nú sé komið inn að beini í skerðingu á fjármagni til leikskóla sem ekki er hægt að mæta nema með beinni skerðingu á þjónustu við börn og fjölskyldur og með minni gæðum í leikskólastarfinu.


Reykjavík 1. febrúar 2016

f.h. leikskólastjórnenda í Reykjavík
Þórunn Gyða Björnsdóttir
Gyða Guðmundsdóttir