is / en / dk

05. Janúar 2016

Veðurspá hafði verið slæm og eitthvað fannst okkur fáskipað í skólanum þennan morgun. Í einni kennslustofunni var einn nemandi með kennara. Nemandinn kom um morguninn frá Grindavík. Aðrir sem bjuggu nær voru ekki viðstaddir. Nokkrir starfsmenn voru nokkuð hugsi. Bent var á rök sem urðu til þess að Lína langsokkur gat hugsað sér að fara í skólann. Þetta var þannig að vinir Línu voru leið vegna þess að Lína var ekki með þeim í skólanum. „Þú ættir bara að vita hvað við höfum indælan kennara“ sagði Tommi við Línu „og hvað það er skemmtilegt í skólanum, ég myndi deyja ef ég gæti ekki farið í skólann“ sagði Anna. „Þú þarft ekkert að vera svo lengi aðeins til klukkan tvo“ bætti Tommi við. „Já svo fáum við jólafrí, páskafrí og sumarfrí“ sagði Anna. Allt í einu sprettur Lína upp og segir „þetta er nú ótrúlega ósanngjarnt. Ég þoli þetta ekki, það kemur jólafrí hjá ykkur en hvað fæ ég, ekkert jólafrí, alls ekkert jólafrí. Eitthvað verður að gera í þessu. Ég byrja í skólanum á morgun.“

Ólafur H. Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum, skrifar

Félagsmenn SFR fóru í verkfall daganna 15., 16., 19. og 20. október. Starfsfólk á skrifstofu, umsjónarmaður, netstjóri og stuðningsfulltrúar lögðu niður störf og ekki fór fram hjá neinum hve þessi störf eru mikilvæg skólum.

Í kjarasamningi kennara er ákvæði um vinnumat hér er um það að ræða að meta skal kennslu með nýjum hætti. Þetta tók gildi nú í haust. Auðvita á eftir að slípa af ýmsa vankanta.

Ný námsskrá tók gildi nú á haustönn í flestum framhaldsskólum. Hér er um að ræða verulegar breytingar á námsskipulagi. Bóknámsbrautir sem áður miðuðu við fjögra ára skipulag verða 3 ára. Nýtt einingakerfi byggir á því að meta vinnu nemenda. Það á rætur að rekja til sambærilegra eininga sem notaðar eru í háskólum í Evrópu (og víðar), á sviði símenntunar og í starfsmenntagreinum víða um Evrópu. Þær einingar eru kallaðar ECTS. Þær mæla vinnuframlag nemenda og er miðað við að ein eining sé ígildi um það bil þriggja daga vinnu. Miðað við skólaárið, sem verður 180 dagar, þá fást 60 einingar út úr árinu, eða 30 nýjar einingar á önn en 20 gamlar einingar, ef öll skilyrði náms eru uppfyllt, próf staðin o.s.frv. Þetta er þó nokkuð meira en í eldra kerfi þar sem viðmiðið var 17,5 eining á önn. Við þurfum að mínu mati að endurhugsa menntun sem ekki er að fullu gert hér. Við erum iðulega að skoða menntun í samhengi við undirbúning fyrir störf sem auðvitað er mikilvægt. Öll menntun, öll störf verða að hafa tengingu, áskorun eða hvað við nefnum það í eftirfarandi:

Mannkynið hefur að líkindum náð 8 milljörðum árið 2025. Vatnsnotkun mannkyns vex um 64000 milljarða lítra ár hvert. Í gær var vatnsnotkun þessa árs komin í 150 milljónir lítra á sekúndu þetta jafngildir 400 Ölfusám. Orkunotkun vex um 50% næstu tvo áratugi. Þörf fyrir fæðu vex á sama tíma um 35%. Á sama tíma gerist það í fyrsta skipti í sögu mannsins að meirihluti manna lifir í borgum. Árið 2050 búa tveir þriðju mannkyns í borgum. Átta af hverjum 10 borgarbúum heimsins verða í borgum suður hluta jarðar, Afriku, Latin Ameriku, og suðurhluta Asíu ásamt Miðausturlöndum.

Þetta gerir það að verkum að hlutverk menntunar verður sífellt mikilvægari. Menntun ein og sér leysir ekki allan vanda okkar. Höfum þó í huga að aldrei áður hefur jafn hátt hlutfall manna haft aðgang að menntun. Hungur hefur aldrei verið minna. Aldrei hafa jafn fáir farist í styrjöldum og nú. Á sama tíma sjáum við vaxandi menningar og trúarlegt óþol, hreyfingar sem hvetja til átaka og umburðarleysis. Þekking, sjálfbærni, réttlæti er andstæða þess sem birtist í ofbeldi, óþoli, mismunun og útilokun. Frekari rök eru hvert sem litið er. Síðan aukast sífellt samskipti okkar allra við allan heiminn, hér er eitt lítið dæmi og þó líklega ekkert lítið:

Jakkinn er gerður úr leðri af nauti sem óx upp á ökrum Albaníu. Bómullarbuxur litaðar af börnum í Uganda. Skórnir eru franskir. Skyrtan er Grísk. Bindið ítalskt. Nærbuxur danskar. Úrið svissneskt líklega samt falsað. Eða var þetta allt framleitt í Kína. Bíllinn fyrir utan þýskur með útblástursvindlbúnaði. Bensínið Norskt. Smurolían frá Saudi Arabíu. Dekkin Finnsk. Kvöldmaturinn lax fóðraður með Amerísku korni. Hvítvínið frá Nýja Sjálandi. Suður kóreski síminn hringir. Rödd á hinum endanum „ Eiga þau að fara eftir miðnætti?“ „Já það er þannig reynið nú einu sinni að koma þessum útlendingum hljóðlega úr landi!“

Það sem við lítum á sem staðreyndir eiga það til að breytast. Einhverju sinni var Einstein kallaður til rektors sem spurði þungur á brún. „Þú leggur sömu spurningarnar fyrir nemendur sem þú notaðir í fyrra.“ „Ha já“ svaraði Einstein, „það er allt í lagi. Svörin hafa breyst.“

Menntun skapar traust. Traust skapar von. Von skapar frið sagði Konfúsíus.

Bestu óskir um gott nýtt ár.
Ólafur Hjörtur Sigurjónsson formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum